Fallegur peysufatadagur

 

Vorið mætti með pomp og prakt síðastliðinn föstudag þegar peysufatadagurinn var haldinn hátíðlegur í Kvennaskólanum. Unga fólkið skemmti sér vel og gladdi vegfarendur víðs vegar um bæinn. Þau dönsuðu og sungu á Ingólfstorgi, í porti Kvennaskólans, fyrir íbúa og starfsfólk á Grund og loks í Þjóðminjasafni Íslands þar sem þau fengu kærkomna hressingu í lok dags.

Það var gaman að sjá hve margir gerðu sér leið í miðborgina til að fylgjast með hópnum. Fjölskyldur og vinir nemenda mættu vel en líka vinir og velunnarar skólans. Mjög ánægjulegt var að sjá þjóðlega búninga frá fleiri löndum í nemendahópnum. Það endurspeglar fjölmenninguna sem við erum þakklát fyrir í skólanum og verður vonandi enn meira áberandi á peysufatadögum framtíðarinnar.

Margrét Helga Hjartardóttir frönskukennari hafði veg og vanda af öllum undirbúningi og dagskrá þessarar dýrmætu hefðar í skólanum. Sigríður Ásta Árnadóttir sá um harmonikkuleik allan daginn og Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari var hópnum til halds og trausts í allri dagskrá.

Hér má finna ljósmyndir frá starfsfólki. Við hvetjum lesendur einnig til að skoða skemmtileg myndbönd sem má finna undir "highlights" á Instagram-síðu skólans, @kvennaskolinnreykjavik. Ljósmyndanefnd á vegum nemendafélagsins tók líka upp mikið myndefni sem þau kynna væntanlega síðar.

 

Peysufatadagurinn – sagan í stuttu máli
Þegar Kvennaskólinn var stofnaður árið 1874 var venjan að nemendur væru í íslenskum búningi í skólanum. Með tímanum breyttist það eins og annað og þegar kom fram um 1920 gengu aðeins sumar stúlknanna í slíkum búningi í skólanum. Vorið 1921 ákváðu nemendur skólans að koma á peysufötum til skólans til hátíðabrigða og gera sér dagamun á eftir. Síðan þá hefur peysufatadagurinn jafnan verið endurtekinn einu sinni á skólaári með vaxandi viðhöfn. Þessi hefð er því orðin rúmlega hundrað ára gömul og þykir ómissandi liður í skólastarfinu.