- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Við sögðum frá því í fyrra að tveir nemendur í Kvennó hefðu unnið ferð til Þýskalands þar sem þau tóku þátt í Þýskuþraut framhaldsskólanna. Nú styttist í næstu keppni því næstkomandi miðvikudag verður keppnin haldin í stofu A7 kl. 10:35. Allar nánari upplýsingar um keppnina á miðvikudag veita þýskukennarar skólans.
Við hvetjum öll til að taka þátt enda til mikils að vinna, sbr. ferðasögur þeirra Róberts og Iðunnar frá því í fyrra. Við þökkum þeim kærlega fyrir að deila þeim og ljósmyndunum með okkur, þvílíka ævintýrið sem þetta hefur verið!
Iðunn Gunnsteinsdóttir
Sko, ég ætlaði ekkert að taka þátt í þessari keppni. Fannst það bara vera eitthvað óþarfa vesen. En síðan hugsaði ég hvað væri það versta sem gæti gerst ef ég tæki þátt. Ekki segja Sigga en þegar ég frétti af því að ef ég myndi taka þátt í keppninni mætti ég sleppa efnafræðitíma var ég seld. Ég tók keppninni því ekki mjög alvarlega en viti menn, þrátt fyrir að hafa lent í lægsta sæti af öllum keppendum í Kvennó var ég frekar hissa þegar Björg lét mig vita að ég væri á leiðinni til Þýskalands! Þau senda nefnilega ekki bara þau sem vinna þýskuþrautina út til Þýskalands, heldur var líka hálfgert lottó þar sem þau draga út einn þátttakanda í keppninni til þess að fara með. Og svo áður en ég vissi af var ég lent í Naumburg, einhverjum smábæ í Þýskalandi. Þetta var geggjuð ferð og ekki bara það var hún svo hagstæð því ég borgaði ekki krónu fyrir mat, gistingu og flug. Ég bjóst líka aldrei við að þetta myndi verða svona skemmtilegt. Satt best að segja var ég næstum búin að hætta við bara viku áður en flugið var út. En þetta var bókstaflega hápunktur sumarsins, enda er aldrei slæmt þegar það er 30 stiga hiti. Ég kynntist svo mikið af mismunandi fólki sem var komið alls staðar að úr heiminum og eignaðist þar vini sem ég mun aldrei gleyma. Ekki bara það en þá var ég svo heppin að fara út með geggjuðu fólki, Róberti og Önnu, og það að fá að kynnast þeim og vera saman úti er eitthvað sem ég verð ævinlega þakklát fyrir. Þetta var svo einstök upplifun að það er eiginlega bara erfitt að lýsa því. Á daginn fylgdum við oft einhverju prógrammi þar sem við fengum að kynnast Þýskalandi betur en einnig bara að skemmta okkur. Fórum t.d. á kajak og borgarferð til Halle, þar sem ég gjörsamlega stútaði veskinu mínu. Kvöldunum eyddum við síðan saman, fórum t.d. í strandblak og kjöftuðum fram á nótt. Ég myndi án djóks mæla svo mikið með þessu, þetta er svo mikil upplifun og eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Bara prófa að taka þátt og það versta sem gerist er ekkert. Og hugsa sér að þetta gerðist allt bara vegna þess að mig langaði að sleppa efnafræði tíma.
Róbert Helgi Pálsson
Vá, hvar á maður að byrja. Þessi ferð var alveg ótrúleg! Ég man þegar Björg þýskukennari hvíslaði að mér í tíma strax eftir að ég hafði klárað próf í þýsku að ég hefði unnið þýskuþrautina og fengi í verðlaun að fara í ungmennabúðir í tvær vikur úti í Þýskalandi. Ég var í sjokki. Síðan fór maður í verðlaunaafhendinguna þar sem ég kynntist stelpunum betur sem ég fór út með en við vorum þrjú sem fórum frá Íslandi, þar af tveir Kvenskælingar. Við töluðum okkur síðan saman þegar kom að því að bóka flug og allt svoleiðis. Síðan kláraðist önnin og áður en maður vissi af var maður í flugvél á leiðinni til Berlínar. Það var svo gaman að vera kominn til Þýskalands og líka heyra fólk tala málið sem maður var búinn að vera að leggja á sig að læra. Við þurftum að taka þrjár lestir til þess að komast frá Berlínar til Naumburgar þar sem ungmennabúðirnar voru haldnar. Lestarferðirnar tóku rúma 3 tíma en þessir þrír tímar voru ógeðslega skemmtilegir. Enda fékk maður að kynnast stelpunum miklu betur áður en maður fékk að hitta alla hina í búðunum. Þegar lestin kom til Naumburgar var tekið á móti okkur með opnum örmum. Cemre og Roger tóku á móti okkar á lestarstöðinni en þau voru sjálfboðaliðar sem voru svo elskuleg að gera Eurocamp að raunveruleika ásamt mörgum öðrum yndislegum sjálfboðaliðum. Maður var með smá fiðrildi í maganum þegar við vorum að leggja fyrir utan Jugend Hostelið enda vissi ég í rauninni ekkert hverju ég átti að búast við. Mér var úthlutað herbergi og var svo lánsamur að enda með Raúl og Vitali í herbergi. Raúl fæddist og býr á Spáni og var elsti þátttakandinn en hann var 27 ára. Vitali var 19 ára en hann er flóttamaður frá Úkraínu. Ég og hann áttum oft góð og innihaldsrík samtöl. Í Eurocamp vorum við alls um 30 manns í heildina sem tókum þátt. Það var mikil áhersla lögð á að skiptast á hugmyndum og vinna saman að því að leysa verkefni. Yfir þessa 14 daga unnum við ýmisleg verkefni. Mikil umræða var um samfélagsleg málefni og pólitík. En fyrir utan öll verkefnin voru líka ferðir. Við fórum t.d. á kayak, máluðum leikskóla, héldum leikrit, íþróttamót, partý, bjuggum til líkön um framtíð Evrópu með Lego og svo margt fleira skemmtilegt. Þarna kynntist ég fjölda fólks með ólíkan bakgrunn sem allt hafði áhugaverðar sögur að segja. Þessi ferð var virkilega þroskandi. Þegar ég hugsa til baka til ferðarinnar núna hálfu ári seinna hef ég áttað mig á því hvað þetta kenndi mér margt. Þessi ferð er ekki bara skemmtileg upp á öll verkefnin og ferðirnar að gera heldur líka upp á tengslin sem að mynduðust. Á síðustu dögum ferðarinnar héldum við kynningar fyrir bæjarstjóra Naumburgar og aðra 50 manns í risa sal. Við frá Íslandi kynntum fallega landið okkar en ég kynnti aukalega sum verkefnin sem við höfðum verið að vinna við. Ég og Iðunn tókum líka skottís upp á sviði og gerðum forfeður okkar stolt. Minningarnar af þessari ferð eru svo sannarlega dýrmætar, ég vona að þið getið líka fengið að fá að upplifa það sem ég fékk að upplifa.