4 hópar í úrslit Fyrirtækjasmiðju

 

Í síðustu viku var verðlaunaafhending fyrir þá hópa sem stóðu sig best í Fyrirtækjasmiðju Ungra frumkvöðla á landsvísu. Það voru um 130 hópar sem tóku þátt en aðeins 30 fyrirtæki komust í úrslit. Kvennaskólinn átti 4 af þeim 30 hópum sem þóttu standa sig best en aðeins einn skóli átti fleiri hópa í úrslitum.

Liðin sem komust í úrslit mættu í dómaraviðtöl þann 1. maí og héldu síðan stóra kynningu daginn eftir á sal í höfuðstöðvum Arion banka. Þrír af hópunum fjórum frá Kvennaskólanum þróuðu forrit fyrir síma. Eitt þeirra hjálpar fólki að flokka rusl, annað að velja sér matsölustað og það þriðja þróaði lausn svo hægt sé að hafa sundkort í síma. Fjórði hópurinn þróaði matvöru og gerði járnríkt snakk úr lambalifur.

Við óskum þeim innilega til hamingju. Öll stóðu þau sig virkilega vel og var gaman að sjá alla hópana samankomna á uppskeruhátíðinni. Á myndinni má sjá hluta hópsins og kennara þeirra, þau Ásdísi Ingólfsdóttur og Kristján Arnarsson.

Hér má lesa frétt um alla hópana okkar sem skrifuð var þegar Vörumessa ungra frumkvöðla var haldin í Smáralind í apríl síðastliðnum.