- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Frönskudeild Kvennaskólans hefur undanfarið átt í góðu samstarfi við franskan menntaskóla, Institution Robin, sem er staðsettur í bænum Vienne, rétt sunnan við Lyon.
Vorið 2023 fengu báðir skólarnir góðan styrk úr Erasmus + áætluninni sem nægði til að borga fyrir flug og ýmislegt fleira fyrir 26 nemenda hóp úr hvorum skóla og kennara þeirra. Nemendur dvöldu þá hjá fjölskyldum og mynduðust í sumum tilfellum tengsl sem hafa fengið gott og gjöfult framhald til þessa.
Nú í byrjun apríl kom hópur frá Institution Robin til Íslands, 31 nemendur og 3 kennarar. Ekki var um skipti að ræða í þetta sinn og dvaldi hópurinn á farfuglaheimili. Þau gerðu margt og fóru víða á stuttum tíma. Okkur í Kvennaskólanum til ánægju, gaf hópurinn sér tíma til að líta í heimsókn, að morgni dags 3. apríl. Urðu þar góðir endurfundir kennara og einnig voru í hópnum einhver systkini nemenda sem tóku þátt í verkefninu í fyrra. Frakkarnir fengu morgunhressingu í mötuneytinu og svo leiðsögn um skólann, kíktu inn í kennslustundir og náðu jafnvel að spjalla við nokkra Kvenskælinga. Einnig náðu þau að sjá nemendur Kvennaskólans dansa og syngja á peysufatadaginn, 5. apríl.
Frönskukennararnir í Kvennó, Margrét Helga og Jóhanna Björk, eru afar ánægðar með vináttuna á milli skólanna og vona að samstarfið haldi áfram í einhverri mynd.