Glæsilegur árangur og ólympíufulltrúi í líffræðikeppni

Sigurvegarar keppninnar. Frá vinstri: Merkúr Máni Hermannsson (2. sæti, MR), Muhammad Shayan Ijaz Su…
Sigurvegarar keppninnar. Frá vinstri: Merkúr Máni Hermannsson (2. sæti, MR), Muhammad Shayan Ijaz Sulehria (1. sæti, MH), Ása Dagrún Geirsdóttir (3. sæti, Kvennó) og Jóakim Uni Arnaldarson (4. sæti, MR)

 

Fyrsta umferðin í Landskeppninni í líffræði fór fram þann 7. febrúar síðastliðinn. Rúmlega 160 framhaldsskólanemar úr 10 skólum tóku þátt í keppninni og komust 20 nemendur í næstu umferð. Af þessum 20 nemendum komu fjórir úr Kvennaskólanum sem er glæsilegur árangur. Það voru þau Ása Dagrún Geirsdóttir í 2NÞ (hún var með flest stig allra þátttakenda í 1. umferð), Hekla Dögg Einarsdóttir í 2NÞ, Benedikt Þórisson í 3NA og Emilía Ingibjörg Heimisdóttir í 2NF (sem gat því miður ekki tekið þátt í 2. umferð).

Síðasta laugardag var svo úrslitakeppnin haldin í Öskju náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Þetta er gríðarlega krefjandi keppni þar sem hún fer fram á ensku og allt er lagt fyrir á sama deginum. Fyrir hádegi var keppt í fræðilegum hluta og 10 efstu keppendurnir úr þeim hluta komust áfram í verklega hlutann sem haldinn var eftir hádegi. Ása Dagrún komst áfram og varð í 3. sæti í lokaumferðinni. Fjórum efstu keppendunum er boðið að taka sæti í landsliði Íslands sem tekur þátt í Alþjóðaólympíukeppninni í líffræði sem fer fram á Filippseyjum í júlí. 

Við óskum þeim öllum innilega til hamingju með árangurinn.