- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Í þessari viku standa yfir Tjarnardagar í Kvennaskólanum. Þeir hófust á þriðjudagsmorgun með því að nemendur mættu á valkynningu þar sem framboð valáfanga fyrir næsta skólaár var kynnt.
Eftir hádegi var svo góðgerðardagur skólans þar sem nemendur stóðu fyrir áheitasöfnun í “keppni” milli bekkja skólans. Safnað var fyrir þrjú samtök; 1. bekkir söfnuðu áheitum fyrir UNICEF, 2. bekkir fyrir Kvennaathvarfið og 3. bekkir fyrir Bergið - Headspace. Nemendur í bekkjunum ákváðu sjálfir hvernig þau skyldu safna áheitum og keppnin fólst í framkvæmd, söfnunarfé og hve margir í hverjum bekk tóku þátt. Þannig var reynt að ýta undir hópefli í bekkjum, skemmtun og leggja góðu málefni lið í leiðinni. Bekkirnir völdu ýmsar leiðir, til dæmis bauð einn bekkur upp á bílaþvott hér í portinu við Miðbæjarskóla. Einhverjir fóru í fjallgöngu og aðrir í dósasöfnun. Einn bekkur safnaði áheitum með því að spila körfubolta og annar föndraði falleg skilaboð og dreifði um miðborgina. Nokkrir bekkir buðu bakkelsi til sölu eða voru með happadrætti.
Á miðvikudeginum fengu nemendur að velja sér stöðvar sem starfsfólk og nemendur stýrðu. Nemendur lærðu til dæmis salsa, karate, glímu, jóga, skák og handverk. Þá var pönnubakstur og matreiðslunámskeið, spilað, sungið í karókí, dansað og púslað í skólanum. Einnig var boðið upp á leiðsögn um merka staði í miðborginni og farið í heimsóknir á söfn. Stór hópur nemenda í leikfélagi skólans fékk svo að nýta þessa daga í æfingar fyrir söngleikinn sem frumsýndur verður í byrjun apríl.
Sjálfur árshátíðardagurinn var í gær, fimmtudag. Bekkirnir sáu sjálfir um að skipuleggja dagskrá yfir daginn. Margir bekkir skipulögðu bröns og einhverjir fóru í ratleik eða sund. Um kvöldið var matur, skemmtidagskrá og ball í Gullhömrum. Nemendur fá svo frídag í dag, föstudag.
Auk þess að taka þátt í dagskrá með nemendum þá er nóg um að vera hjá kennurum því þessir dagar eru líka notaðir í endurmenntun, þróunarstarf og námsmat. Málstofur voru haldnar þar sem kennarar ræddu ýmislegt sem viðkemur skólastarfinu, til dæmis rafrænt prófakerfi, kosti gervigreindar í kennslu, skólaheimsóknir á söfn í miðborginni og leiðir til að minnka símanotkun í kennslustundum.
Við minnum nemendur á að allar upplýsingar um valáfanga fyrir skólaárið 2025-2026 eru undir „aðstoð“ í Innu. Nemendur eiga að fylla út skráningarblað sem er vistað á sama stað. Skráningu í valáfanga lýkur mánudaginn 24. febrúar.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá vikunni.