Fræðst um uppruna og hauskúpu

 

Nemendur í valáfanga í mannfræði fóru í heimsókn í Íslenska erfðagreiningu/Decode þann 10. september. Líffræðilegi mannfræðingurinn Sunna Ebenesersdóttir tók á móti hópnum og hélt fyrirlestur um uppruna og skyldleika mismunandi mannhópa. Sunna og annað vísindafólk ÍE hafa verið að rannsaka þessi viðfangsefni í mörg ár og eru meðal þeirra fremstu á sínu sviði.
Meðal þess sem Sunna greindi frá í fyrirlestrinum var nýleg rannsókn hennar og Agnars Helgasonar á hauskúpubroti sem fannst árið 2023 í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Forsætisráðherra óskaði eftir aðkomu ÍE að sýnatöku og erfðarannsókn á líkamsleifunum en það var hálf ótrúlegt að vísindafólk hafi náð nægilegu erfðaefni til að rannsaka. Sunna og Agnar kynntu niðurstöður sínar í desember 2023 en þar greindu þau frá því að hauskúpubrotið er af danskri konu sem var uppi á bilinu 1720-1780. Hvernig líkamsleifar hennar komust undir gólffjalirnar er hins vegar óljóst.
Nemendur höfðu gaman af því að skyggnast bak við tjöldin á þessu fjölmiðlamáli og læra meira um starf líffræðilegra mannfræðinga og mannerfðafræðinga á Íslandi. Kennari áfangans er Ágústa Björg Kettler Kristjánsdóttir.