Hólmsheiði, Hæstiréttur og Héraðsdómur

 

Í Kvennaskólanum geta nemendur valið lögfræði sem valáfanga. Þetta er vinsæl grein og margir nemendur taka tvo áfanga þar sem hægt er að velja framhaldsáfanga á vorönn að loknum inngangsáfanga haustsins. Í fyrri áfanganum kynnast nemendur lögfræði sem fræðigrein og fjallað um aðferðafræði og mikilvæg grundvallarhugtök lögfræðinnar auk þeirra réttarheimilda sem lögfræði grundvallast á. Fjallað er um mannréttindalög, stjórnskipunar- og stjórnsýslurétt, Evrópurétt og þjóðarétt, refsirétt og skaðabótarétt. Mikil áhersla er á að nemendur þjálfist í að lesa lög og greina réttarstöðu aðila og réttaráhrif laga. Í seinni áfanganum er lögð áhersla á að veita nemendum greinargóða þjálfun í lögskýringum og beitingu laga auk þess hagnýta gildis að þjálfa nemendur við gerð ýmissa löggerninga, s.s. samninga, stofnun félaga, dómstefnur og erfðaskrár. 

Í áfanganum fá nemendur bæði gestafyrirlesara til sín og fara í vettvangsferðir. Til dæmis heimsóttu nemendur Héraðsdóm Reykjavíkur, Hæstarétt og fangelsið á Hólmsheiði. Það var tekið vel á móti hópnum hvarvetna og heimsóknirnar voru mjög fræðandi í alla staði og frábær viðbót við nám í skólastofunni. Guðrún Erla Sigurðardóttir er kennari í báðum þessum áföngum.