Kvennaskólinn í fjórða sæti sem Stofnun ársins

F.v. Guðný Rún Sigurðardóttir fjármálastjóri, Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari, Björk Þorgeirsdót…
F.v. Guðný Rún Sigurðardóttir fjármálastjóri, Ásdís Arnalds aðstoðarskólameistari, Björk Þorgeirsdóttir námstjóri og Kolfinna Jóhannesdóttir skólameistari.

 

Kvennaskólinn varð í fjórða sæti í flokki meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2023 og er því ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins. Niðurstöður voru kynntar í gær á Hilton Reykjavík Nordica.

Kvennaskólinn hækkaði um fjögur sæti á milli ára en á hverju ári eru fyrstu fimm sætin í hverjum flokki verðlaunuð sérstaklega og fá sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun ársins þar sem þær þykja skara fram úr að mati starfsfólks á sviði mannauðsmála.

Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu og hún mun verða okkur hvatning til áframhaldandi umbóta í starfsumhverfi okkar. Þessi árangur er sameiginleg uppskera alls starfsfólks í Kvennaskólanum.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar og fjölmargra stofnana og starfsstaða. Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfi sínu, þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsfólks á vinnustöðum. Sjá nánar um könnunina hér https://www.sameyki.is/kannanir/stofnun-arsins-2023/vinningshafar-riki-2023/