- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Kvennaskólinn varð í fjórða sæti í flokki meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2023 og er því ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins. Niðurstöður voru kynntar í gær á Hilton Reykjavík Nordica.
Kvennaskólinn hækkaði um fjögur sæti á milli ára en á hverju ári eru fyrstu fimm sætin í hverjum flokki verðlaunuð sérstaklega og fá sæmdarheitið Fyrirmyndarstofnun ársins þar sem þær þykja skara fram úr að mati starfsfólks á sviði mannauðsmála.
Við erum mjög stolt af þessari viðurkenningu og hún mun verða okkur hvatning til áframhaldandi umbóta í starfsumhverfi okkar. Þessi árangur er sameiginleg uppskera alls starfsfólks í Kvennaskólanum.
Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, Kjara- og mannauðssýslu ríkisins, Mannauðs- og starfsumhverfissviðs borgarinnar og fjölmargra stofnana og starfsstaða. Í könnuninni eru þátttakendur spurðir út í níu þætti í starfsumhverfi sínu, þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti. Markmiðið með að velja fyrirmyndarstofnanir er að hvetja stjórnendur stofnana til að huga að mannauðsmálum og auka umræðu um aðbúnað og líðan starfsfólks á vinnustöðum. Sjá nánar um könnunina hér https://www.sameyki.is/kannanir/stofnun-arsins-2023/vinningshafar-riki-2023/