- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Samleið mín með Kvennaskólanum í Reykjavík nær aftur til haustsins 1973 þegar ég hóf þar kennslu í stærðfræði og raungreinum. Þá var skólinn á grunnskólastigi, fyrir stúlkur á aldrinum 13 til 16 ára. Þetta voru kröfuharðir og öflugir nemendur sem reyndu svo sannarlega á þolrifin í nýjum kennara. Það var eins gott að standa á góðum grunni í fögunum sínum. Þetta var fyrir tíma tölvunnar og reiknivélanna. Próf voru vélrituð á stensil og fjölfölduð þannig. Einnig var notaður sprittfjölritari fyrir smærri verkefni.
Þennan fyrsta vetur minn var verið að undirbúa 100 ára afmæli skólans. Unnið var að útgáfu bókar um aldarsögu skólans, Kvennaskólinn í Reykjavík 1874-1974. Sagt var frá aðdraganda stofnunar skólans, kennskuháttum, skólalífinu og þróun. Margar myndir eru í bókinni, nemenda- og kennaratal og greinar um þá fjóra skólastjóra sem höfðu stýrt skólanum þessi 100 ár. Þessi bók varð mér mjög gagnlegt uppflettirit í störfum mínum við skólann. Þann 1. október 1974 var okkur öllum boðið til móttöku í ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Fylking starfsmanna og nemenda gekk frá skólanum í ráðherrabústaðinn og þáði þar veitingar í boði Vilhjálms Hjálmarssonar menntamálaráðherra. Það er eftirminnilegt.
Dr. Guðrún P. Helgadóttir var skólastjóri og hafði barist fyrir því að skólinn færðist yfir á framhaldsskólastig en mætt þar miklu mótlæti. Á þessum árum þótti úr takti við tímann að skólinn væri eingöngu fyrir stúlkur og fór svo að fyrsti pilturinn var tekinn inn í skólann haustið 1977. Og nú tóku við hraðar breytingar. Tveggja ára uppeldisbraut var sett á legg við skólann þetta sama haust og skólinn síðan færður á framhaldsskólastig haustið 1979 og þá undir hatti Fjölbrautaskólans í Breiðholti því að þá mátti ekki vera nema einn fjölbrautaskóli í hverju sveitarfélagi. Dr. Guðrún endaði starfsferil sinn á að útskrifa fyrstu stúdenta skólans vorið 1982.
Aðalsteinn Eiríksson skólameistari, eftirmaður dr. Guðrúnar, átti eftir að leiða skólann farsællega fram á veginn. Í fyrstu var skólinn fjölbrautaskóli á uppeldissviði með þremur brautum, fósturbraut, íþróttabraut og menntabraut sem gat leitt til stúdentsprófs, en varð bekkjaskóli 1986 og fékk þá fullt sjálfstæði í framhaldsskólaflórunni. Aðalsteinn var óþreytandi við innleiðingar nýjunga í skólastarfið. Tölvuöldin hélt innreið sína og reyndist skólameistarinn þaulsætinn við þessi tæki til að þvinga þau til hlýðni í störfum sínum. Engan þekki ég sem hefur áorkað því sem honum tókst í þessum efnum. Undir forystu hans var skólinn brautryðjandi við innleiðingu samningsstjórnunar 1994. Í því fólst að taka bókhald, ráðningar og allan rekstur til sín. Skólinn hlaut fyrst ríkisstofnana Áttavitann sem ríkisstofnun til fyrirmyndar árið 1996.
Ég var svo heppin að fá að vera aðstoðarskólameistari hjá Aðalsteini í 12 ár og sinnti jafnframt kennslu í stærðfræði. Þetta samstarf varð mér mjög lærdómsríkt og gefandi. Það var svo haustið 1998 að ég tók við skólameistaraembættinu, fyrst í afleysingu og síðan skipaður skólameistari og gengdi því í 17 ár. Þau urðu 43 árin mín í Kvennó. Gæfa mín í starfi var að geta byggt á traustum grunni forveranna og eiga svo hauka í horni í frábæru starfsfólki og nemendum.
Eftir setningu nýrra laga um framhaldsskóla 2008 tók skólinn að sér að þróa styttingu náms til stúdentsprófs í samstarfi við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ og Menntamálaráðuneytið. Kennsla á þriggja ára námsbrautum hófst haustið 2009. Þarna unnu kennarar skólans og aðstoðarstjórnendur mínir þrekvirki í endurskipulagningu náms. Þessir sérfræðingar rýndu í allt sem við vorum að gera og komu með úrlausnir sem reyndust að flestra dómi vel eins og úttektarskýrslur staðfesta.
Frk. Ingibjörg H. Bjarnason skólastjóri arfleiddi Kvennaskólann að flestum eigum sínum. Í skólanum er fín og virðuleg stofa búin gömlum húsgögnum, m.a. fyrsta skólaborðinu og safn gamalla muna úr sögu skólans. Þessi stofa er oft notuð sem viðtalsherbergi sem virkar mjög vel á viðmælendur. Flestir verða mjög hissa sem koma þarna inn og þar er erfitt að vera með ágreining uppi.
Skólamenningin í Kvennaskólanum er mjög sterk og einkennist af umhyggju, virðingu, vináttu og hefðum sem sumar eru meira en aldargamlar eins og Peysufatadagurinn, og síðast en ekki síst metnaði til góðra verka. Skólinn hefur alltaf verið í miðborginni og er með elsta, óbreytta skólanafnið á Íslandi. Mikil ánægja nemenda er með skólann sinn, þau syngja stolt „Kvennaskólinn minn, Kvennaskólinn minn“. Nemendur töluðu oft um að þau nytu þess að starfsfólkið þekkti þau og bæri fyrir þeim umhyggju.
Það gjörbreytti allri aðstöðu skólans þegar hann fékk Miðbæjarskólann til afnota 2011. Það bætti mjög úr húsnæðisþörf hans og gerði rekstrareininguna býsna hagkvæma. Í skólanum er lögð áhersla á að nemendur beri virðingu fyrir húsunum og gangi vel um þau sem þeir gera.
Á 150 ára afmælisdegi Kvennaskólans í Reykjavík óska ég skólanum alls heilla. Ég lagði til við menntamálaráðherra í fyrra að friðlýsa ætti Kvennaskólann í Reykjavík sem framsækna menningar- og menntastofnun sem býr yfir merkilegri sögu og ræktar góð gildi hjá nemendum sínum í friðlýstum húsum. Ekki veit ég hvort það gengur eftir en megi skólinn fá að gegna sínu góða starfi í þágu æsku landsins um mörg ókomin ár.
Afmælisgjöf mín til skólans er svolítil peningaupphæð sem lögð er inn í verðlaunasjóð skólans til minningar um Þóru Melsteð stofnanda hans. Mér fannst alltaf skemmtilegt að veita framúrskarandi nemendum verðlaun í hennar minningu.
Ingibjörg S. Guðmundsdóttir fyrrverandi skólameistari