Kvennó á tónleikum í Hörpu

 

Fyrr í dag var nemendum og starfsfólki Kvennaskólans boðið á tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu. Tónleikarnir voru í samvinnu við Listasafn Íslands og var þema þeirra álfar, tröll og draugar. Þjóðsögurnar voru valdar af þjóðfræðingi fyrir hljómsveitina og lagavalið var bæði innlent og erlent. Myndum eftir Ásgrím Jónsson listmálara var varpað á sviðstjaldið á meðan hljómsveitin spilaði og sögumaðurinn Ólafur Egill Egilsson sagði frá íslenskum þjóðsögum með miklum tilþrifum og gaf þeim nútímalegan blæ. Þá var virkilega gaman að sjá Langspilssveit Flóaskóla í för með hljómsveitinni enda hljóðfærið mjög viðeigandi með gömlu þjóðsögunum okkar.

Það er alltaf gaman að brjóta upp daginn og mikil forréttindi að geta gengið úr skólanum yfir í Hörpu tónlistarhús og gleymt sér um stund. Við þökkum sviðslistafólkinu og starfsfólki Hörpu innilega fyrir okkur.