Kvenskælingur í landsliðinu í eðlisfræði

 

Kvennaskólinn á fulltrúa í landsliði framhaldsskóla í eðlisfræði því Katrín Hekla Magnúsdóttir mun fara á EuPho, Evrópsku ólympíuleikana í eðlisfræði sem haldnir verða í Georgíu í sumar. Ákveðið var að Ísland myndi ekki senda keppendur á IPhO (alþjóðlegu ólympíuleikana) í Íran vegna ótryggs ástands í þeim heimshluta.

Katrín er eina konan í hópnum en auk hennar skipa liðið tveir nemendur Verslunarskólans og tveir nemendur Menntaskólans í Reykjavík. Einn nemandi í viðbót mun taka þátt í undirbúningnum sem varamaður og er hún nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík.

Stefnt er að því að þjálfun fyrir keppnina fari fram daglega í 6 vikur í sumar áður en lagt verður af stað um miðjan júlí. Undirbúningurinn fer bæði fram í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Það er einstakt tækifæri að taka þátt í svona verkefni og virkilega lærdómsríkt. 

Við erum í skýjunum yfir frábærum árangri Katrínar og vonum að sumarið verði gott. Hjartans hamingjuóskir elsku Katrín.