Kvenskælingur vann ferð til New York

Mynd/FSÞ. Eybjört Ísól Torfadóttir og Þröstur Flóki Klemensson sigurvegarar ásamt Elizu Reid, forset…
Mynd/FSÞ. Eybjört Ísól Torfadóttir og Þröstur Flóki Klemensson sigurvegarar ásamt Elizu Reid, forsetafrú og formanni dómnefnar, og Evu Harðardóttur, formanni FSÞ.

 

Á dögunum var haldin samkeppni um mikilvægi heimsmarkmiðanna fyrir mannréttindi og frið. Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi stóð fyrir keppninni og það var formaður dómnefndar og verndari félagsins, Eliza Reid forsetafrú, sem veitti verðlaunin við hátíðlega athöfn.

Alls bárust tæplega 40 tillögur í keppnina af öllu landinu frá nemendum á grunn- og framhaldsskólastigi. Dómnefndin kaus að lokum tvær sigurtillögur og veitti þar að auki sex auka verðlaun.

Eybjört Ísól Torfadóttir sem er nemandi á 2. ári í Kvennaskólanum var önnur tveggja sem fengu aðalverðlaun keppninnar fyrir smásögur sínar um heimsmarkmiðin. Hinn vinningshafinn var Þröstur Flóki Klemensson, nemandi við Háteigsskóla fyrir sögu sína um Anahi og Berglindi.

Verðlaunin voru heldur betur vegleg því báðir vinningshafar hlutu bókaverðlaun frá Angústúru og ferð til New York ásamt forráðamönnum sínum. Þar munu þau meðal annars heimsækja fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna.

Þá var einn Kvenskælingur í hópi þeirra sex nemenda sem fengu aukaverðlaun í keppninni því Ágúst Páll Óskarsson, sem einnig er nemandi á 2. ári, hlaut viðurkenningu fyrir hugleiðinguna sína ‘Vongóðar vangaveltur. Hann hlaut bókagjöf frá Angústúru og aðgang að Storytel.

Innilega til hamingju kæru Eybjört Ísól og Ágúst Páll.