Lifandi kennsla út um allan bæ

Kvennaskólinn er svo vel staðsettur í miðborginni að kennarar geta farið með nemendur í alls kyns heimsóknir án mikillar fyrirhafnar. Hægt er að heimsækja spennandi söfn og stofnanir og bregða sér í göngutúra um fallega og sögufræga staði. Alltaf er eitthvað um að vera í miðborginni. Svo förum við auðvitað stundum út fyrir miðborgina í alls kyns vettvangsheimsóknir. Hér eru dæmi um nýliðnar heimsóknir:

Nemendur í valáfanganum Handverk fór í vettvangsferð í Myndlistaskólann í Reykjavík og skoðaði ýmsa möguleika í textílnámi.

Nemendur í lögfræði fengu frábærar mótttökur þegar þau heimsóttu Landsrétt fyrr í vetur. Þeim var sagt frá t.d. hvernig hlutverkin eru í réttarsalnum t.d. hvar dómarar sitja og vitni o.sv. frv. Nemendur fengu að sjá þrjá réttarsali og skoða fangageymslu réttarins sem er í kjallara/jarðhæð hússins. Þá hafa þau líka farið í Bjarkarhlíð og Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Í næstu viku er svo ætlunin að heimsækja Héraðsdóm Reykjavíkur og fylgjast með alvöru málflutningi.

Nemendur á hugvísindabraut eru að læra um nútímabókmenntir og skoðuðu sýninguna A Bra Ka Da Bra: Töfrar samtímalistar í Listasafni Reykjavíkur.


Nemendur á félagsvísindabraut fóru á Listasafn Íslands til að skoða list í tengslum við námsefnið List og menning i lífi barna sem þau læra um í uppeldisfræði.

Nemendur í Náms-og starfsvali fara svo í heimsóknir alla fimmtudaga til að kynna sér nám að loknu stúdentsprófi. Síðasta heimsókn var á Verk- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands.