Magnaður árangur í líffræðikeppninni

 
Guðrún Sigríður Símonardóttir í 3NF og Tristan Tómasson í 3NA tóku þátt í úrslitum líffræðikeppninnar í Öskju þann 17. febrúar síðastliðinn. Þau voru í hópi 20 nemenda af 200 framhaldsskólanemendum á Íslandi sem komust alla leið í úrslitakeppnina. 
 
Keppnin fór þannig fram að fyrst þurftu nemendur að leysa krossapróf sem tók klukkustund. Þetta var þungt próf á ensku og aðeins 12 hæstu nemendurnir úr þessu prófi fengu að halda áfram og taka verklega prófið. Það er skemmst frá því að segja að bæði Guðrún og Tristan náðu inn í þennan tólf manna hóp og þreyttu því verklega prófið líka. Það próf byggði bæði á kunnáttu í dýrafræði og grasafræði. Keppendur kryfðu fisk og merktu ákveðin líffæri með pinnum. Síðan fengu þau plöntu í hendurnar, nánar tiltekið lilju, og áttu að merkja ákveðin atriði með pinnum á liljunni, t.d. krónublöð, bikarblöð o.fl. 
 
Þau stóðu sig frábærlega og voru mjög stutt frá því að komast í sjálft ólympíuliðið en aðeins fjögur hæstu fengu sæti í liðinu. Þau voru að vonum mjög ánægð með árangurinn og sögðust reynslunni ríkari og að þetta hafi verið virkilega fróðlegt og skemmtilegt. Svo sakaði heldur ekki að fá tækifæri til að sjá aðstöðuna í háskólanum, spjalla við nemendur og forvitnast um líffræði sem háskólagrein. 
 
Við erum að sjálfsögðu að rifna úr stolti og óskum þeim innilega til hamingju með árangurinn. 
 
Meðfylgjandi eru myndir af tólf manna hópnum sem komst alla leið í verklega prófið og þeim Guðrúnu og Tristani í prófinu.