Nemendur Kvennó söfnuðu 1,3 milljónum til góðgerðarmála

Nemendur í 1NÞ heldur betur ánægð með verðlaunin í dag
Nemendur í 1NÞ heldur betur ánægð með verðlaunin í dag

 

Í dag veitti skólinn viðurkenningar til tveggja bekkja vegna góðgerðardagsins sem haldinn var á Tjarnardögum. Það var 1NÞ sem fékk pizzuveislu fyrir vel unnið verkefni en þau voru líka bekkurinn sem safnaði mestu. Þau söfnuðu 274 þúsund krónum til styrktar Unicef. Umsjónarkennarinn þeirra er einmitt Sigurlaug Rúnarsdóttir keppnismanneskja með meiru! Hinn bekkurinn sem fékk verðlaun er 2ND en þau fá pizzuveislu fyrir frumlegheit og hressleika. Þau ákváðu að klæða sig upp í geggjaða grímubúninga og selja heimabakað bakkelsi.

Samanlagt tókst nemendum í skólanum að safna rúmlega 1,3 milljónum króna (nákvæm upphæð var 1.331.907 krónur!). Við erum ákaflega stolt af nemendum skólans því dagurinn einkenndist bæði af góðri samveru í bekkjunum og flottri söfnun fyrir mikilvæg málefni.

Bekkirnir ákváðu sjálfir hvernig áheitasöfnunin færi fram. Verkefnin voru mjög fjölbreytt og mörg þeirra innihéldu hreyfingu og samveru. Bekkirnir völdu ýmsar leiðir, til dæmis bauð einn bekkur upp á bílaþvott hér í portinu við Miðbæjarskóla. Einhverjir fóru í fjallgöngu og aðrir í dósasöfnun. Einn bekkur safnaði áheitum með því að spila körfubolta og annar föndraði falleg skilaboð og dreifði um miðborgina. Að þessu sinni voru valin þrjú góðgerðaverkefni: Bergið-Headspace, Unicef og Kvennaathvarfið.

Góðgerðardagurinn er liður í Tjarnardögum Kvennaskólans sem hafa verið haldnir í tæpa hálf öld. Þetta eru þemadagar þar sem hlé er gert á kennslu og nemendur velja sér ýmis styttri námskeið, kynningar og heimsóknir út í bæ. Dagarnir enda ávallt á glæsilegri árshátíð sem að þessu sinni var haldin í Gullhömrum.

                             

 

   

 

2ND virkilega ánægð með verðlaunin í dag