- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Skólasetning fór fram í Kvennaskólanum í dag. Nýnemar mættu í dagskrá fyrir hádegi sem hófst á ávarpi Kolfinnu Jóhannesdóttur skólameistara. Hún sagði þeim skemmtilegar sögur og gaf nemendum heilræði fyrir nýtt skólastig. Kolfinna ræddi meðal annars mikilvægi þess að hafa gaman í skólanum og að ekki mætti leyfa stressi að taka yfir né hræðast mistök. Hún lagði einnig ríka áherslu á að allir hefðu tíma til að huga að góðri heilsu, enda mataræði, svefni og hreyfing algjört lykilatriði hvað varðar farsæla skólagöngu.
Í ávarpinu var líka rætt um mikilvægi þess að við öll þyrftum að hlúa að þeim anda sem einkennir skólann. Hann birtist meðal annars í umhyggju, gagnkvæmri virðingu og áherslu á að öllum líði vel, nemendum og starfsfólki. Þessi andi tengist líka þeim gildum sem við viljum standa fyrir sem eru einmitt umhyggja, jafnrétti og fjölbreytileiki.
Hver og einn bekkur hitti svo sinn umsjónarkennara og fékk kynningu á öllu því helsta sem tengist skólastarfinu. Að því loknu fóru nemendur í Keðjunni, nemendafélagi skólans, með bekkina í kynnisferð um skólann og voru með hópefli sem endaði með grillveislu í porti Miðbæjarskólans. Skemmtileg myndbönd frá hópeflinu má sjá á instagram miðli skólans.
Eftir hádegi tók við fræðsludagskrá fyrir eldri nemendur sem kosnir voru í nefndir og ráð á vegum nemendafélagsins síðastliðið vor. Fjallað var um ýmislegt sem kemur að stefnu skólans í hinum ýmsu málaflokkum, svo sem forvarnir, jafnréttismál og persónuvernd. Þetta er gert til að undirbúa nemendur sem best fyrir störf í þágu nemenda.
Næskomandi mánudag hefst svo kennsla fyrir alla nemendur skólans. Við biðjum nemendur að skoða stundaskrána reglulega í Innu fyrstu dagana því stundum þarf að breyta stundaskrá/ kennslustofum með stuttum fyrirvara.
Að lokum viljum við minna eldri nemendur á að töflubreytingum lýkur miðvikudaginn 23. ágúst. Upplýsingar um valáfanga í boði skólaárið 2023-2024 eru undir aðstoð í Innu. Hægt er að óska eftir töflubreytingum í gegnum Innu.