Ógleymanleg ferð á gosstöðvarnar


Nemendur á lokaári náttúruvísindabrautar eru nú í áfanganum Jarð3KJ05 og því var ákveðið að heimsækja gosstöðvarnar á Fagradalsfjalli á Reykjanesi. Sökum Covid-19 þurfti óvenju mikið skipulag og marga starfsmenn til fararinnar. Ákveðið var að nemendur innan hvers bekkjar mynduðu 4-5 manna hópa sem færu í einkabílum á gosstöðvarnar. Lagt var af stað klukkan tvö svo ekki þyrfti að taka of mikið af skóladeginum. Einn starfsmaður fór síðan fyrir hverjum 20 manna nemendahópi í sjálfri göngunni. Skipulagið gekk vonum framar því klukkan níu um kvöldið voru allir komnir til síns heima!

Nemendur voru kátir með ferðina og fannst upplifunin á gosstöðvunum stórkostleg. Eins voru þeir himinlifandi með að fá að eiga félagslíf með bekkjarfélögunum utan skólastofunnar án þess að Covid-19 truflaði.Veðrið var líka með eindæmum gott þennan dag; sól og hægur vestanvindur á gosstöðvunum.

Engin vandamál komu upp í ferðinni þó gangan hafi vissulega reynst þeim misauðveld (eða erfið). Allir komust á leiðarenda stórslysalaust og voru skólanum og kennurum sínum til mikils sóma.

Kennararnir eiga mikið hrós skilið fyrir uppátækið og alla þá vinnu sem lögð var í verkefnið. Jarðfræðikennararnir Haraldur Gunnarsson, Auður Agla Óladóttir og Vera Pálsdóttir báru hitann og þungann af skipulaginu. Sú síðastnefnda átti því miður ekki heimangengt en var svo heppin að nemendur hennar í 3NC færðu henni forláta hraunmola af gosstöðvunum sem smá sárabætur. Virkilega fallega gert af þeim og ber vott um hlýjuna sem einkennir skólasamfélagið okkar. Þessi upplifun mun seint gleymast, svo mikið er víst!

Fleiri ljósmyndir úr ferðinni má sjá á facebooksíðu skólans: https://www.facebook.com/kvennaskolinn