- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Eftir þriggja ára bið var loks hægt að halda peysufatadag með hefðbundnu sniði í gær, fimmtudaginn 7. apríl. Í blíðskaparveðri glöddu nemendur á 3. ári gesti miðborgarinnar með dans og söng, meðal annars fyrir framan Hallgrímskirkju, á Ingólfstorgi og í Miðbæjarskólaporti Kvennaskólans. Þá var einnig sungið og dansað fyrir starfsfólk mennta- og barnamálaráðuneytis og íbúa dvalar- og hjúkrunarheimilisins Grund við Hringbraut.
Undanfarin ár hefur 2. bekkur skólans tekið þátt í peysufatadeginum en vegna Covid-19 áttu 3. bekkingar enn eftir að fá sinn peysufatadag og því var brugðið á það ráð að leyfa þeim að eiga daginn núna og halda í staðinn tvo peysufatadaga á næsta skólaári til að jafna þetta út.
Dagurinn heppnaðist frábærlega, nemendur voru vel undirbúnir fyrir daginn en umsjón með deginum hafði Margrét Helga Hjartardóttir og henni til aðstoðar á sjálfan daginn var Lilja Dögg Gunnarsdóttir kórstjóri skólans. Að vanda fylgdi Reynir Jónasson harmonikkuleikari hópnum og lék af sinni alkunnu snilld.
Fleiri ljósmyndir eru væntanlegar og verða birtar síðar.
Um sögu peysufatadagsins; Það mun hafa verið venja á dögum frú Þóru Melsteð að stúlkurnar gengju á íslenskum búningi í skólann. Með tímanum breyttist það eins og annað og þegar kom fram um 1920 gengu aðeins sumar stúlknanna í slíkum búningi í skólanum. Það mun hafa verið vorið 1921 sem stúlkurnar tóku sig allar saman um að gera það til hátíðabrigða að koma á peysufötum til skólans og gera sér ofurlítinn dagamun á eftir. Þetta var fyrsti peysufatadagurinn og hefur hann jafnan verið endurtekinn einu sinni á vetri síðan með vaxandi viðhöfn. (Heimild: Kvennaskólabókin 1974, AE).