Ráðherra heimsótti Kvennaskólann

 

Í síðustu viku var nýr vefur Árnastofnunar, m.is, opnaður formlega í sal Kvennaskólans af Lilju Dögg Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra. Nemendur á nýrri íslenskubraut í Kvennaskólanum voru á meðal nemenda sem mættu á viðburðinn og má sjá hópinn ásamt ráðherra og Katarzynu Agnieszku Rabeda, deildarstjóra brautarinnar á myndinni hér til hliðar. Verkefnisstjóri nýja vefsins er Starkaður Barkarson en hann er einmitt kennari við Kvennaskólann.

Nýi vefurinn er sérstaklega hugsaður fyrir yngra fólk og þá sem læra íslensku sem annað mál en hann getur að sjálfsögðu gagnast öllum sem vilja leita sér upplýsinga um íslenska tungu. Í þessari fyrstu útgáfu er hægt að fletta upp í þremur orðabókum sem Árnastofnun gefur út, Íslenskri nútímamálsorðabók, Íslensk-enskri orðabók og Íslensk-pólskri orðabók. Tvær þær síðarnefndu eru enn í vinnslu en eru nógu langt komnar til að koma að góðum notum.

Auk þess að birta skýringar og dæmi um orð í orðabókunum eru sýndar beygingar orða með upplýsingum úr Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls (BÍN). Einnig er hægt að þýða á milli íslensku og ensku með hjálp vélþýðinga. Mikil vinna hefur verið lögð í að gera útlit og skipulag skýrt og á það einnig við um snjalltæki. Notast var við nýjar lausnir á sviði máltækni við gerð vefjarins og geta notendur til að mynda talað inn orð í stað þess að slá þau inn á lyklaborð.