Skólahald á tímum Covid 19

Ágætu nemendur og forráðamenn

Eins og þið vitið hefur samkomubann tekið gildi á Íslandi auk þess sem framhaldsskólum og háskólum hefur verið lokað vegna Covid 19.

Það þýðir að nemendur hafa ekki lengur aðgang að skólahúsnæðinu og að kennsla fer nú fram með rafrænum hætti. Ólíkt kennaraverkföllum er staðan sú núna að kennarar eru við störf og sinna nemendum sínum með mismunandi hætti í gegnum Innu. Við leggjum áherslu á að nemendur séu í sambandi við kennara sína á Innu eins og þeir eru vanir. Þar munu kennarar leggja fyrir verkefni og fyrirmæli, fylgjast með verkefnaskilum og meta vinnu nemenda. Við gerum ráð fyrir að fyrirkomulagið geti verið með mismunandi hætti eftir áföngum.

Við biðjum nemendur okkar um að fara reglulega inn á Innu og kanna hvað þar liggur fyrir hverju sinni og skipuleggja síðan nám sitt í samræmi við það. Mikilvægt er að þið vinnið vel á hverjum degi og kappkostið að halda námsáætlunum eins og hægt er miðað við aðstæður.

Skrifstofa skólans er starfandi en þó með breyttu sniði. Við munum ekki halda úti stöðugri símsvörun en við munum sjá allan póst sem sendur er á  netfangið kvenno@kvenno.is, svara  honum eftir bestu getu og koma erindum til þeirra er málið varða hverju sinni. Einnig getið þið bókað símaviðtöl við námsráðgjafa í gegnum Innu eða sent þeim tölvupóst (hildigunnurg@kvenno.is , sigridurmt@kvenno.is ).

Við munum sinna ykkur eins vel og við frekast getum. Það er líka gott að vita hversu vel þið kunnið að  nýta ykkur upplýsingatæknina og skemmtilegt hefur verið að fylgjast með þeirri þróun í skólanum.

Ef einhver ykkar hafa ekki aðgang að tölvu og neti þá bið ég hina sömu um að láta okkur vita.

Þið þurfið að vera dugleg að hafa samskipti ykkar á milli; bera saman bækur ykkar og aðstoða hvert annað. Hafið alltaf hugfastar leiðbeiningar Landlæknis um handþvott og umgengni við þessar sérstöku aðstæður.  Munið, að við viljum leggja mikið á okkur til þess að freista þess að geta lokið skólanum á tilsettum tíma í vor. Vinnuframlag ykkar og dugnaður eru í því sambandi lykilþættir – og góð og markviss samskipti ykkar við kennarana.

Loks hvet ég ykkur, sem orðin eru 18 ára, að veita foreldrum/forráðamönnum ykkar aðgang að Innunni svo að þeir geti fylgst með því sem er að gerast hjá ykkur og í skólanum og hjálpað ykkur að halda réttri stefnu. Leiðbeiningar um hvernig þið veitið þeim aðgang eru á heimasíðu skólans.

Setjið námið í fyrsta sæti – borðið nóg af hollum mat – gætið að góðum svefni – verið dugleg að  hreyfa ykkur – hugsið vel hvert um annað.

Hjalti Jón, skólameistari