Skólameistari Kvennaskólans varði doktorsverkefni sitt

 

Skólameistari Kvennaskólans, Kolfinna Jóhannesdóttir, varði doktorsritgerð sína í menntavísindum fimmtudaginn 12. október síðastliðinn. Verkefnið ber heitið Stefna um sjálfstæði skóla yfir þróun námskrár: Tilviksrannsókn í fjórum framhaldsskólum á Íslandi.

Um leið og við fögnum mjög nýrri rannsókn á framhaldsskólakerfinu þá óskum við Kolfinnu innilega til hamingju með doktorsprófið og hlökkum til að sjá frekari skrif um afar fróðlega rannsókn. 

Í rannsókninni var sjónum beint að stefnu stjórnvalda frá 2008 sem felur í sér aukið sjálfstæði framhaldsskóla á Íslandi yfir þróun námskrár.  Markmið hennar var að auka skilning á því hvernig þessi stefna hefur verið skilin og framkvæmd af hagsmunaðilum skóla og hverju hún er talin hafa áorkað fyrir nemendur. Rannsóknin sýndi hvernig samspil margvíslegra aðstæðubundinna þátta hafði áhrif á hvernig skólarnir skynjuðu svigrúm sitt og getu til að nýta stefnuna til að gera breytingar. Í þessu samhengi höfðu einkum áhrif skiptar faglegar skoðanir, fjárhagslegar áskoranir og hindranir og val nemenda. Niðurstöður sýna misræmi milli væntinga stjórnenda og kennara til stefnunnar og þess sem þeir upplifðu þegar kom að framkvæmd stefnunnar í staðbundnu samhengi. Þetta tengdist að miklu leyti áhrifum frá öðrum stefnuáherslum sem voru í gangi á sama tíma, einkum styttingu á námstíma til stúdentsprófs, auknu skrifræði og flóknari stjórnsýslu. Framkvæmd stefnunnar framkallaði áskoranir í starfi leiðtoga skóla sem stjórnendur breytinga, sérstaklega í tengslum við áhrif stefnunnar á starfsöryggi kennara. Með hliðsjón af yfirlýstum markmiðum stefnunnar og hverju hún hefur áorkað fyrir nemendur þá eru vísbendingar um að fjölbreytni náms hafi aukist en að áhrifin séu mismunandi milli skóla og milli námsgreina, sem dregur fram mikilvægi þess að skilja áhrifin í tengslum við sérstakar aðstæður hvers skóla. Þrátt fyrir að nemendur hafi greint frá því að aukinn sveigjanleiki og áhersla á símat í stað lokaprófa hafi leitt til þess að námið henti þörfum þeirra betur, þá finnast enn hindranir fyrir jöfnu aðgengi að námi sem tengjast árangri í bóknámi og landfræðilegum og lýðfræðilegum takmörkunum. Í tengslum við niðurstöður rannsóknar eru lagðar fram tillögur er varða þróun á stefnunni. Jafnframt er dregin sú ályktun að frekari aðgerða sé þörf ef stefnan um sjálfstæði skóla og skólaval eigi að geta virkað saman á árangursríkan hátt með hliðsjón af staðbundnum aðstæðum á Íslandi.

Andmælendur við doktorsvörnina voru Dr. Gita Steiner-Khamsi og dr. Gunnlaugur Magnússon. Aðalleiðbeinandi var Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og meðleiðbeinandi var Dr. Andrew Townsend prófessor við Háskólann í Nottingham. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd dr. Jón Torfi Jónasson prófessor emeritus við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Stjórnandi athafnarinnar var Karen Rut Gísladóttir prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði.

Hægt er að sjá upptöku af vörninni hér: https://livestream.com/hi/doktorsvornkolfinnajohannesdottir

Ljósmyndir Gunnars Sverrissonar eru birtar með góðfúslegu leyfi Háskóla Íslands.