- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Skólasetning fór fram í Kvennaskólanum í dag. Nýnemar mættu í dagskrá fyrir hádegi sem hófst á ávarpi Kolfinnu Jóhannesdóttur skólameistara. Hún gaf nemendum heilræði fyrir nýtt skólastig og ræddi meðal annars mikilvægi þess að hafa gaman í skólanum og að stundum tæki tíma að fóta sig í nýju umhverfi. Í ávarpinu var líka rætt um gildin sem starfsfólk og nemendur í Kvennaskólanum völdu fyrir skólann á síðasta ári. Þessi gildi eru umhyggja, ábyrgð og fjölbreytileiki. Gildið umhyggja merkir að við berum umhyggju fyrir nemendum, samstarfsfólki og samfélaginu og miðum að því að skapa vinnuumhverfi þar sem virðing og fjölbreytni fær að njóta sín. Ábyrgð stendur fyrir að við berum ábyrgð á námi okkar og starfi og höfum vönduð vinnubrögð, heiðarleika og fagmennsku að leiðarljósi í skólastarfinu. Einnig er lögð áhersla á gagnkvæma ábyrgð innan skólans, samfélaginu og umhverfinu. Síðast en ekki síst er það svo gildið fjölbreytileiki sem merkir að við fögnum fjölbreytileikanum og berum virðingu fyrir mismunandi menningu og uppruna, þvert á kyn og stöðu einstaklinga.
Að ávarpi loknu hittu umsjónarkennarar sína bekki og ræddu það helsta sem tengist skólastarfinu. Að því loknu fóru nemendur í Keðjunni, nemendafélagi skólans, með bekkina í kynnisferð um skólann og voru með hópefli sem endaði með grillveislu í porti Miðbæjarskólans.
Eftir hádegi tók við fræðsludagskrá fyrir eldri nemendur sem kosnir voru í nefndir og ráð á vegum nemendafélagsins síðastliðið vor. Fjallað var um ýmislegt sem kemur að stefnu skólans í hinum ýmsu málaflokkum, svo sem forvarnir, jafnréttismál og persónuvernd. Þetta er gert til að undirbúa nemendur sem best fyrir störf í þágu nemenda.
Á morgun, þriðjudaginn 20. ágúst hefst svo kennsla fyrir alla nemendur skólans. Við biðjum nemendur að skoða stundaskrána reglulega í Innu fyrstu dagana því stundum þarf að breyta stundaskrá/ kennslustofum með stuttum fyrirvara.
Að lokum viljum við minna eldri nemendur á að töflubreytingum lýkur fimmtudaginn 22. ágúst. Upplýsingar um valáfanga í boði skólaárið 2024-2025 eru undir aðstoð í Innu. Hægt er að óska eftir töflubreytingum í gegnum Innu.