Stúdentar úr Kvennó hlutu styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði HÍ

 

Fimm fyrrverandi nemendur úr Kvennaskólanum í Reykjavík hlutu nýverið styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Styrkir eru veittir nýnemum við Háskóla Íslands sem náð hafa framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og jafnframt látið til sín taka á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og/eða íþróttum.

Styrkþegar úr Kvennó að þessu sinni eru þær Herdís Pálsdóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir, Ingunn Guðnadóttir, Katrín Hekla Magnúsdóttir og María Margrét Gísladóttir. 

  • Herdís Pálsdóttir brautskráðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í fyrra og fékk m.a. verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í frönskunámi. Hún var mjög virk í félagslífi Kvennó, sat í nefndum og ráðum, og þá á hún að baki margra ára nám á franskt horn. Herdís hefur innritast í íslensku.
  • Ingibjörg Ólafsdóttir útskrifaðist sem stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík vorið 2023 og hlaut við útskrift viðurkenningu fyrir góðan árangur í ensku og þar að auki Stúdentspennann fyrir bestu stúdentsritgerðina. Á Kvennaskólaárunum tók hún einnig virkan þátt í félagsstarfi skólans. Þá státar hún af yfir tíu ára námi í fiðluleik og hefur tekið þátt í verkefnum Sinfóníuhljómsveitar tónlistarskólanna. Ingibjörg hefur hafið nám í fornleifafræði.
  • Ingunn Guðnadóttir brautskráðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor og var semidúx skólans. Hún hlaut einnig verðlaun fyrir góðan árangur í íslensku og raungreinum. Ingunn á enn fremur að baki margra ára nám í þverflautuleik og hún hefur æft körfubolta af kappi frá unga aldri með Þór Þorlákshöfn. Ingunn hefur innritast í lífeindafræði. 
  • Katrín Hekla Magnúsdóttir útskrifaðist sem dúx Kvennaskólans í Reykjavík í vor og hlaut auk þess verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur í stærðfræði og jarðfræði. Hún náði glæsilegum árangri í Eðlisfræðikeppni framhaldsskólanna í vor sem skilaði henni í landsliðið í greininni sem tók þátt í Evrópuleikunum í eðlisfræði í Georgíu í sumar. Þá á hún að baki langt píanónám og er enn fremur ein af lykilmönnum í meistaraflokki HK í handbolta. Katrín Hekla hefur innritast í verkfræðilega eðlisfræði. 
  • María Margrét Gísladóttir brautskráðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík í vor og hlaut meðal annars viðurkenningu fyrir afburðaárangur í efnafræði á stúdentsprófi og Stúdentspennann fyrir bestu lokaritgerðina. Á menntaskólaárunum dvaldi hún eitt ár sem skiptinemi í Houston í Texas og þá náði hún góðum árangri í þýskuþraut framhaldsskólanna og sigraði enn fremur í landskeppninni í efnafræði í fyrravetur. Það tryggði henni sæti í Ólympíuliði Íslands í greininni og hún tók í sumar þátt í Norrænu efnafræðikeppninni í Ósló og Ólympíukeppninni í efnafræði í Sádi-Arabíu. María hefur hafið nám í efnaverkfræði.

Við sendum þeim öllum okkar innilegustu heillaóskir. Við söknum þeirra héðan úr Kvennó en þykjumst vita að þær muni láta til sín taka á nýjum og spennandi vettvangi. Þeim eru allir vegir færir!

Nánari upplýsingar um verðlaunin og verðlaunahafana eru á vef Háskóla Íslands, https://www.hi.is/frettir/rumlega_30_afreksnemar_fa_styrk_til_nams_i_haskola_islands