Tilraunir og lögmál

Unnar Bjarni Arnalds, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands ræðir við nemendur Kvennaskólans.
Unnar Bjarni Arnalds, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands ræðir við nemendur Kvennaskólans.

 

Það hefur verið nóg um að vera í vetur hjá nemendum sem eru í valáfanganum EÐLI3GS05 - Snúningur og geislun. Þetta er valáfangi á þriðja þrepi þar sem nemendur á þriðja ári á náttúruvísindabraut kafa djúpt ofan í ýmis lögmál eðlisfræðinnar með aðstoð okkar frábæru eðlisfræðikennara, Leu Maríu Lemarquis og Mariu Sastre. Í vetur hafa þau til dæmis verið að vinna sjálfstætt og í hópum tengt ýmsum tilraunum og undirbúið fyrirlestra fyrir hvert annað um afmörkuð efni eðlisfræðinnar.

Í nóvember heimsóttu þau þrjá staði sem tengjast við viðfangsefninu. Í byrjun mánaðarins heimsóttu þau Geislavarnir ríkisins sem er stofnun undir Heilbrigðisráðuneytinu sem annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum. Þann 13. nóvember heimsóttu þau eðlisfræðideildina í Háskóla Íslands og fengu kynningu á ýmsu sem eðlisfræðideildin er að gera þar. Síðasta heimsóknin var síðan í Háskólann í Reykjavík þar sem nemendur fengu meðal annars að prófa ýmis tæki sem notuð eru tilraunum í eðlisfræði. Allar heimsóknirnar heppnuðust einstaklega vel og þökkum við kærlega fyrir góðar móttökur á öllum stöðum.