- Kynning fyrir 10. bekkinga
- Skólinn
- Námið
- Þjónusta
- Áfangar
- English
Í síðustu viku voru Tjarnardagar haldnir í Kvennaskólanum. Byrjað var á valkynningu á þriðjudagsmorgni þar sem valáfangar fyrir næsta skólaár voru kynntir fyrir nemendum. Síðan tóku við skemmtilegir viðburðir úti í bæ sem Tjarnardaganefnd var búin að undirbúa. Nemendur fóru í escape room, húsdýragarðinn, sund, keilu og á trampólín í Rush, heimsókn á listasafn, í keramikmálun í Noztra, klifurhúsið, minigolf, fimleika og á skauta.
Á miðvikudeginum hélt gleðin áfram en nú innan veggja skólans. Nemendur völdu mismunandi stöðvar yfir daginn sem starfsfólk og nemendur sáu um að skipuleggja. Hægt var að mæta í tónlistarsmiðju, spila skák eða borðspil, fara í karókí, fræðast um Ítalíu, kynheilbrigði, hjálparstarf, frestunaráráttu, hugræna atferlismeðferð, læra handavinnu, elda ódýran stúdentamat, fara á hraðstefnumót til að kynnast fólki í skólanum, spila varúlf, prófa tarot spil, taka þátt í jóga, keppa í pub quiz, læra hugleiðsluaðferðir og dansa. Einnig var boðið upp á gönguferð um miðborgina, heimsókn á ljósmyndasafn, spjall um hvernig hægt er að gera Kvennó að betri skóla og vinnustofu í efnafræði. Eins fengum við til okkar gestafyrirlesara frá ungum umhverfissinnum, samtökum um átröskun og skiptinemasamtökunum AFS. Leikfélagið fékk að nýta þessa daga í æfingar fyrir söngleikinn sem frumsýndur verður 8. mars og sömuleiðis mátti velja að vera á bókasafninu að læra ef fólk vildi það frekar. Um kvöldið fóru fram 8 liða úrslitin í MorfÍs þar sem Kvennó mætti liði Flensborgar í Hafnarfirði. Umræðuefnið var listamannalaun og stóðu keppendur sig frábærlega þó úrslitin hafi ekki verið hagstæð okkur. Virkilega skemmtileg keppni og við óskum Flensborg til hamingju með sigurinn.
Sjálfur árshátíðardagurinn var svo á fimmtudeginum. Bekkirnir sáu um að skipuleggja dagskrá yfir daginn. Margir bekkir skipulögðu bröns og einhverjir fóru í ratleik eða sund. Svo um kvöldið var matur, skemmtidagskrá og ball í Gullhömrum. Nemendur fengu svo kærkomið frí á föstudeginum.
Auk þess að taka þátt í dagskrá með nemendum þá var nóg um að vera hjá kennurum því þessir dagar eru líka notaðir í endurmenntun og námsmat. Málstofur voru haldnar þar sem kennarar ræddu ýmislegt sem viðkemur skólastarfinu. Til dæmis var rætt um bekkjarstjórnun, forvarnarstefnu skólans, leiðir til að nýta teams-kerfið í kennslu og nýja áfanga í skólanum.
Við fengum líka mjög fróðlegan fyrirlestur frá dr. Maríu Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóra stafræns ofbeldis hjá embætti Ríkislögreglustjóra. Þar ræddi hún um kynferðisbrot og framhaldsskólanema. Hún fjallaði um veruleika ungs fólks á samfélagsmiðlum, úrræði og viðbrögð. Erindið var mjög upplýsandi og gott að fá tækifæri til að ræða saman og spyrja spurninga. Ánægjulegt var að heyra að viðbragðsáætlun Kvennaskólans þyki góð og að stjórnvöld horfi meðal annars til hennar í þeirri vinnu sem nú fer fram um samræmda áætlun fyrir allt skólakerfið. Við erum svo heppin að María Rún er formaður foreldrafélags Kvennaskólans og er sjálf stúdent frá skólanum.
Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá miðvikudeginum.